Verkið mitt Undankomuleið var sýnt á samsýningu myndlistarnema í Listaháskólanum vorið 2022. Með verkinu sýndi ég ferli af gjörningnum að mála með veðrinu. Ég tók myndbönd af verkinu flæða með regnvatni og olíulitum, sem eru ósamrýmanleg efni, og varpaði fram minni upplifun af veðruðum verkum. Verkið veðraðist úti á grasfleti hjá skólanum í þrjár vikur. Nærmynd af athöfninni var varpað á málverkið sjálft á samsýningunni. Þarna vildi ég sýna gjörninginn með að mála veðruð verk. Með því að rýna í nærmynd af verkinu, í samvinnu við veðrið skoðaði ég hvernig kringumstæður höfðu áhrif á verkið og mótuðu það.
Undankomuleið var mín leið til að teygja málverkið og varpa upp broti af ferlinu. Með kvikmyndinni reyni ég að sýna mitt sjónarhorn á gjörningnum sem er verkið, ferlið og tíminn. Ég vil fjalla um mína skynjun á þeim þáttum. Ég sýni brot af samtali olíu og regns, þætti sem sýna athöfnina við að mála með veðrinu. Kringumstæður mynda heild, ég sé brot af þeim.