Vorið 2022 héldum við samnemendur í myndlist samsýninguna Aðgát skal höfð í Listasafni Einars Jónssonar. Verkið mitt RYÐ var staðsett í Höggmyndagarðinum, ég hafði áhuga á að skoða niðurbrot náttúrunnar á járni og gipsi. Til sýnis voru þrír þríhyrningar 75x75 cm, einn var úr gipsi, annar var úr járni og þriðji var sambland af járni og gipsi. Gips dregur í sig vatn og liti úr umhverfinu sem það er staðsett á. Ég mótaði það í öðrum járnþríhyrningnum og gipsið dró í sig ryð úr járninu sem skildi eftir ummerki af ryðrákum. Ryð er kaldur bruni og ég vildi fylgjast með hvernig kringumstæður brenna hlutinn niður.

Opið kerfi er skilgreint sem kerfi sem skiptist á efnum við umhverfið, kerfið tekur inn og skilur eftir, það getur byggt upp og brotið niður efnisþætti. Veðrið er opið kerfi því það getur mótað umhverfið með uppsprettu og niðurbroti.13 Verkin mín geta tekið virkan þátt í opnu kerfi þar sem umhverfið mótar þau og verkin móta umhverfið. Ég sækist í að nota náttúruleg efni eins og gips og járn sem breytist og dregur í sig.

Ég fór í vettvangsferðir á hverjum degi í tvær vikur á meðan á sýningunni stóð til að taka myndir og myndbönd af áhrifum umhverfis og veðurs. Í fyrstu var ég upptekin af því að skoða hvernig náttúran og veðrið myndi brjóta niður verkið, en með vettvangsathugunum sá ég að almenningur Höggmyndagarðsins tók þátt í niðurbrotinu. Ég fann verk á hliðinni, sá hund pissa á það, sá skóför á öllum þríhyrningunum, jafnframt því sem einhver hafði teiknað í ryðið. RYÐ er verk sem er breytist sífellt. Rithöfundurinn Lynne sagði merkingu hlutar ekki vara að eilífu því flestir hlutir hverfi. Listamenn leitast við að skilja nútímann í gegnum endurtekningar.14 Ég sæki í að veðra verkin mín og fylgjast með niðurbroti efna, ég endurtek aðferðir mínar með ólíkum miðlum og leitast við að skoða hvernig tíminn og kringumstæður hafa áhrif á verkin.

Veðrið og vegfarendur unnu saman að niðurbroti RYÐS. Fólk er hluti af kringumstæðum verkanna og það tók þátt í að móta verkin. Það kom mér á óvart að fólk tók þátt í niðurbrotinu en um leið opnaðist nýr skilningur á hvernig niðurbrot getur átt sér stað og við hvaða kringumstæðum. Niðurbrot á sér ekki stað einungis af mannavöldum heldur á það sér stað með margvíslegum náttúrulegum þáttum eins og rakastigi, birtu, vindi, regnvatni, snjó og svo mætti áfram telja. Eins og listamaðurinn Jóhann Eyfells orðaði það „Sköpunin sjálf er óaðskiljanlegur hluti niðurstöðunnar (...) Í rauninni er þetta allt saman náið samspil milli hitastigs, veðurs og verksins, sem verið er að vinna.“

Previous
Previous

Undankomuleið 2022: Íris María Leifsdóttir

Next
Next

Rare earth materials 2021: Íris María Leifsdóttir