Einkasýningin mín Jökulrof í Listaháskóla Íslands 2023

Jökulrof á sér stað með hreyfingu jökla, tíma og veðrun. Ég sæki jökulurð frá Sólheimajökli, hlusta á jökulinn hreyfast, skoða áhrif veðrunar á niðurbroti jarðefna. Ég miðla upplifun af hreyfingu jökuls í myndrænu formi, upplifun sem augnabliki í flæði tímans. Ég miðla skynjunina með því að varpa fram brotum af jökulefnum og sviðset kringumstæður í sýningunni Jökulrof sem var í sífelldum breytingum. Veðruðu verkin mín verða að skrásetningu athafnar og þær kringumstæður í listrænu ferli. Ég sýni fram á hvernig veðrið, tíminn og jökulrof birtist mér. Bráðnun jöklanna er ein helsta birtingarmynd umhverfisbreytinga samtímans, en með verkunum varpa ég fram brotum af eigin upplifun gagnvart þeim breytingum sem eru yfirvofandi. Ég túlka hvernig ég upplifi Sólheimajökul og endurspegla mig við heiminn eins og hann birtist mér.

Sýningin var upplifun, sviðsetning, gjörningur, hreyfing, samtal, málverk, skúlptúr, hljóðverk, vídeóverk, skrásetning, tími og lærdómsferli. Ég lék mér að mörkum milli listgreina til að túlka upplifun mína á jökulrofi. Allir áhorfendur sýningarinnar urðu þátttakendur í gjörningnum þegar þau stigu inn í listaverk og snertu ísinn. Listaverkið var hljóðupptaka frá Sólheimajökli, jökulurð og manngerður ís. Ég sviðsetti kringumstæður; ég var í samtali við þátttakendur, málaði tvo hringi, einn á gólfi og annan á vegg með jökulurð og fylgdist með ís bráðna ofan á jökulurðinni. Í fyrri verkum hef ég sleppt stjórn á kringumstæðum með því að leyfa veðrinu að taka stjórn og móta verk, en í Jökulrofi sviðsetti ég þær kringumstæður inn í sýningarrými sem skapaði nýja hringrás. Verkið var í stöðugum breytingum og endurgerði jökulrof í öðrum kringumstæðum.

Einkasýningin mín, Jökulrof, var haldin 10. mars 2023 í Kubbnum, sýningarsal í Listaháskólanum. Ég notaðist við ís sem hreyfði við jarðefnum undan Sólheimajökli. Ísinn stjórnaði opnunartíma sýningar; opið þar til ísinn væri bráðnaður. Ísinn var 56 klukkutíma og 45 mínútur að bráðna. Ég var viðstödd allan tímann og fylgdist með hreyfingu vatns undan ísnum. Ísinn stjórnaði tímanum mínum, hann hélt mér í sýningarsalnum í tvær nætur.

Á öðrum degi sýningar tengdust hringirnir tveir með flæðandi vatni undan ísnum, sviðsetningin minnti mig á skriðjökul. Ísinn bráðnaði hægt og rólega, vatnið á gólfinu flutti jarðefnin að hringnum á veggnum, fyrir mér endurspeglaðist jökulrof í vatninu. Veðruð jarðefni, sem mótuðust undir þrýstingi jökulíss og tíma, staðsett í sýningarsal þar sem vatn hefur slípað jökuljarðefnin og hreyft við þeim. Því lengur sem ég var í rýminu, því meira tók ég eftir litlu hreyfingunum. Sólin skein á ísinn í örfáar mínútur á dag og lýsti hann upp sem myndaði samspil ljóss, íss, skugga, regnboga og loftbóla. Breytingarnar voru oftast tilviljunum háðar. Þó stjórnaði ég kringumstæðum mínum, sem komu mér sífellt á óvart. Á þriðja degi sýningar, sex klukkutímum eftir að ísinn valt á hliðina og brotnaði í fjóra parta, braut ég ísinn í litla ísjaka og fylgdist með þeim bráðna í lófanum mínum. Við það augnablik endaði sýningin.

Previous
Previous

Skrásetning Jökulrofs 2023: Nýlistasafnið á samsýningunni Athöfn

Next
Next

The marble effect of glacier clay from Iceland and Greenland 2023: Augnablikin