Veðruð Verk í Listasal Mosfellsbæjar 2025

Veðruð Verk er einkasýning Írisar Maríu Leifsdóttur sem opnar laugardaginn 18. október kl. 14–16 í Listasal Mosfellsbæjar og stendur til 7. nóvember

Málverk Írisar Maríu eru innblásin af veðri og hún kallar þau Veðruð Verk. Þar skrásetur hún veðrið og málar í samspili við náttúruöflin með íslenskum jarðefnum sem hún hefur safnað á fjöllum, jöklum og í ám og býr til eigin olíumálningu úr þeim. Hún málar undir berum himni með mýrarauða, jökulleir, sandi og olíu á striga, þar sem veðrið tekur við sköpunarferlinu og mótar verkin með tímanum. Íris María hefur málað með veðrinu í sex ár. Á sýningunni má sjá listferil hennar og þróun Veðraða Verka.

Nýjustu verk hennar eru unnin úr svartstáli: hún brennur plötuna, sker hana út, býr til festingar og leyfir verkinu að ryðga í rigningunni. Að lokum málar hún stálverkin með jökulleir sem einnig má finna í málverkunum á sýningunni.

Íris María leikur sér á mörkum listgreina og sýnir málverk, málmskúlptúra, hljóðverk, skrásetningar, sviðsetningar, innsetningar og flytur gjörninga. Hún lítur á fólk, veður, tíma, aðstæður, umhverfi og aðra ferla sem beina þátttakendur í listsköpun sinni og sem óumflýjanlega samstarfsaðila.

Sýningarstjóri: Maddý Hauth

Myndir: Ragnheiður Harpa Leifsdóttir

Íris María Leifsdóttir (f. 1993) er myndlistarkona. Hún stundar nám í listkennslu við Listaháskóla Íslands, hefur lokið meistaragráðu í myndlist frá sama skóla, bakkalárgráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands og diplóma í listmálun frá Myndlistaskólanum í Reykjavík. Íris María hefur sýnt á söfnum og galleríum bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur hlotið fjölda styrkja fyrir störf sín sem myndlistarkona. Hún hefur sterk tengsl við Grænland, og ferðast þangað á hverju ári til að halda Augnablikin sýningar og námskeið um jökulleir í samstarfi við Antoníu Bergþórsdóttur og grænlenskt listafólk. Hún hefur einnig haldið regluleg vatnslita- og keramiknámskeið fyrir börn og fullorðna, auk þess að hafa verið sýningarstjóri myndlistarsýninga hjá FLÆÐI.

Next
Next

Ofið landslag